Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Safnaðu góðum dögum

Á heimasíðu dóttur minnar www.oddny.is las ég skemmtilegar hugleiðingar um góða daga. Þar vitnar hún í þá lífssýn að safna góðum dögum og að gefa góðum dögum gaum þegar þeir líta dagsins ljós. Þessar pælingar í dögum minna mig á afa minn, Kjartan Norðdahl, hann átti mörg góð orðatiltæki og tilsvör á reiðum höndum í daglegu lífi. Í hugum afkomenda hans eru til margar minningar sem tengjast góðum dögum og munum við mörg eftir því að hjá honum voru ,,allir dagar sunnudagar". Afi minn var vel gefinn og skemmtilegur karl. Góðir dagar eru ekki sjálfgefnir og sannarlega ástæða til að gleðjast þegar þeir birtast eins og í síðustu viku þegar Mona Sahlin var kjörin formaður sænska jafnaðarmannaflokksins og eru núna þrjár konur sem veita jafnaðarmannaflokkum forystu á Norðurlöndum. Var það góður dagur í sögu kvenréttinda og vonandi að þeir verði fleiri í nánustu framtíð. Ég man eftir mörgum slíkum góðum og best man ég eftir deginum þegar Íslendingar kusu sér konu til að gegna forsetaembættinu. Mikið hlakka ég til þegar okkur ber gæfu til að velja kvenforsætisráðherra og það er kannski ekki svo ýkja langt í það, alla vega eigum við góðan fulltrúa sem gegnir formennsku í stjórnmálaflokki og smellpassar í hlutverkið. Notaleg tilfinning hríslast um mig þegar ég hugsa til dagsins góða þegar R-listinn vann sinn fyrsta sæta sigur og Ingibjörg Sórún varð borgarstjórinn okkar. Forsætisráðherrastóllinn bíður og nú er bara að spýta í lófana og fara alla leið. Næst ætla ég að tala um gott fólk sem er, eins og góðir dagar, ekki sjálfgefið og ástæða til að staldra við þegar það gengur inn í líf manns.  mn

Langþráður - barmurinn breiði

Lyfjabrunnurinn var fjarlægður úr barmi mér (reyndar aldrei verið breiður) á tilsettum tíma og hefur allt gengið vel. Saumaklúbburinn fór fram með friðsemd, fyrsta heimsókn til Sólveigar í nýtt húsnæði. Gerður var góður rómur að smekklegheitum hennar og sona. mn

Hamingjuóskir

Atli Björn

Atli Björn stóðst vörnina í masternáminu með mikilli prýði.  Þetta er stór áfangi sem virkilega er hægt að gleðjast yfir og til hamingju með það elsku drengurinn.  Þú er búinn að standa þig frábærlega vel eins og þín er von og vísan.  Á myndinni sem ég fékk lánaða hjá þér mundar þú kjuðann einbeittur á svip.  Myndin segir allt sem segja þarf, einbeitingin er þín sterka hlið, hún mun nýtast þér í starfi á komandi árum.  Það verður gaman að fá þig heim.


Lyfjabrunnur

Í maímánuði á síðasta ári var settur í mig lyfjabrunnur og staðsettur í bringunni - vinstramegin. Var hann notaður til að dæla lyfjum í vinstri bláæðina og mikill munur að sleppa við stungur og ,,legg" í handarbakið. En hlutverki hans lauk í nóvember og sjálfsagt að fjarlægja hann. Það er einfalt mál og tekur smá stund með staðdeyfingu en samt er hann enn í minni virðulegu bringu. Ástæða? Jú ástandið á LSH Landspítala-Háskólasjúkrahúsi er þannig að biðlistar eru óralangir. Menn þurfa að bíða í margar vikur eftir einfaldri skinnsprettuaðgerð. Og þegar kemur að stærri málum eins og skurðaðgerð er biðin enn lengri - ef sjúklingurinn er ekki i bráðri hættu er biðtíminn margir mánuðir. Tenging á mínum pípulögnum er komin í bið fram á haust.  Svona er þetta nú. En skinnsprettuaðgerðin með tilheyrandi saumaskap verður framkvæmd núna á fimmtudaginn og get ég í framhaldi af því óhikað teygt mig og beygt að vild. Og lyft lóðum af meira öryggi. Skemmtileg frétt af Atla Birni á síðunni hans http://abel.blog.is 
Maja


Saumaklúbburinn

LangþráðurÁ föstudagskvöldið kemur verður saumaklúbbur hjá Sólveigu ekki hjá Maríu eins og talað var um síðast. Skiluru!


Kraftar í kögglum

Síðan um áramót hef ég stundað líkamsrækt/þjálfun fjórum sinnum í viku. Tvisvar í viku yoga og tvisvar í Hreyfingu. Þegar ég byrjaði var líkamsástand mitt vægast sagt bágborið. Vöðvakrafturinn lítill, úthald, einbeiting, samhæfing hreyfinga og jafnvægi - allt var þetta nánast á núlli. Annar tíminn í Hreyfingu er tækjatími og var lóðunum hvorki lyft hátt né hratt til að byrja með. Eitt tækið hafði verið mér sérlega andsnúið, hafði gert ítrekaðar tilraunir til að sigra það en handleggirnir einfaldlega neituðu að hlýða - þar til í dag! Var það ólýsanleg tilfinning að finna kraftinn streyma og lyfta 9 kg. af lóðum! Og ekki bara einu sinni heldur 6 sinnum - hátt upp fyrir höfuð. Mikill áfangi og var mér klappað lof í lófa eins og um frækilegan sigur í fótbolta væri að ræða - gegn Dönum.

Íþróttatímarnir eru á vegum Ljóssins og eru Ljósberum að kostnaðarlausu. Yogatímarnir eru í Neskirkju þar sem aðsetur Ljóssins er og Arnhildur yogakennari og starfsmaður leiðir okkur um unaðssemdir yogafræðanna. Í Hreyfingu Faxafeni erum við með fasta tíma  - í öðrum iðkum við gamaldags leikfimi og eins og áður sagði æfum í tækjasal í hinum tímanum. Þar heldur Guðrún sjúkraþjálfari utan um hópinn. Guðrún er ung sómakona úr Árbænum og kenndi ég henni á árum áður. Starfsmenn Ljóssins koma alltaf í tímana með okkur, Erna forstöðumaður eða Berlind iðjuþjálfi. Frábært framtak sem þegar er farið að skila góðum árangri.


Almyrkvi á tungli

Á morgun, laugardag, verður almyrkvi á tungli, sem sést frá Íslandi ef himininn verður heiðskír. Meira um þetta á  http://www.stjornuskodun.is

Seattle

Það styttist í það að Atli Björn komi heim frá Seattle.  Eitthvað tekur það þó lengri tíma að ljúka Masternáminu í verkfræði, en hann bjóst við.  Nú reiknar hann með að koma heim 24. mars, sem reyndar er alveg ágætur tími því þá er stutt í Páskaleyfið, sem er tilvalið slökunartímabil með spennandi augnablikum.    EL


Kim Larsen

Gaman væri að slást í hóp ættingja og vina í Horesens og hlusta á Kim Larsen sem þenur raddböndin í kvöld. En huggun harmi gegn að hafa hlustað á hann hér um árið. Góða skemmtun. mn

Flokkarölt

Í fréttum sjónvarpsins 27. nóv. 2006  var sagt frá því að Kristinn H Gunnarsson alþingismaður sem hafnaði í þriðja sæti í prófkjöri Framsóknarmanna í NV-kjördæmi sé ekki mjög ánægður þessa dagana. Talið er að hann muni jafnvel ekki taka sætið, fara fremur í sérframboð eða í Frjálslynda flokkinn. Sama kvöld varð þessi vísa til, en birtist fyrst núna. Kristinn hefur nú ákveðið að ganga til liðs við Frjálslynda flokkinn og það verður þriðji flokkurinn sem hann styðurá sjö árum - Kristinn er því allt jafn hress og ferskur.  EL


Kristinn milli flokka fer,
fæti tyllir niður.
Ofursnilli eflaust ber,
enn um hylli biður.

Fleiri vísur komu af þessu brölti eða rölti alþingismannsins.

Í Kristni blundar göfugt gen,
gengur funda milli.
Frelsislundin fyllir senn,
frjálsa stundarhylli.    


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband