Kraftar í kögglum

Síðan um áramót hef ég stundað líkamsrækt/þjálfun fjórum sinnum í viku. Tvisvar í viku yoga og tvisvar í Hreyfingu. Þegar ég byrjaði var líkamsástand mitt vægast sagt bágborið. Vöðvakrafturinn lítill, úthald, einbeiting, samhæfing hreyfinga og jafnvægi - allt var þetta nánast á núlli. Annar tíminn í Hreyfingu er tækjatími og var lóðunum hvorki lyft hátt né hratt til að byrja með. Eitt tækið hafði verið mér sérlega andsnúið, hafði gert ítrekaðar tilraunir til að sigra það en handleggirnir einfaldlega neituðu að hlýða - þar til í dag! Var það ólýsanleg tilfinning að finna kraftinn streyma og lyfta 9 kg. af lóðum! Og ekki bara einu sinni heldur 6 sinnum - hátt upp fyrir höfuð. Mikill áfangi og var mér klappað lof í lófa eins og um frækilegan sigur í fótbolta væri að ræða - gegn Dönum.

Íþróttatímarnir eru á vegum Ljóssins og eru Ljósberum að kostnaðarlausu. Yogatímarnir eru í Neskirkju þar sem aðsetur Ljóssins er og Arnhildur yogakennari og starfsmaður leiðir okkur um unaðssemdir yogafræðanna. Í Hreyfingu Faxafeni erum við með fasta tíma  - í öðrum iðkum við gamaldags leikfimi og eins og áður sagði æfum í tækjasal í hinum tímanum. Þar heldur Guðrún sjúkraþjálfari utan um hópinn. Guðrún er ung sómakona úr Árbænum og kenndi ég henni á árum áður. Starfsmenn Ljóssins koma alltaf í tímana með okkur, Erna forstöðumaður eða Berlind iðjuþjálfi. Frábært framtak sem þegar er farið að skila góðum árangri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband