Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

6-tugur

Í gær varð hann Eggert minn 60 ára - unglingurinn á heimilinu. Af því tilefni fórum við í leikhúsið og sáum leikritið Leg. Okkur fannst báðum mikið til koma og bráðskemmtilegt verk. Góð tónlist, góður texti, frábær leikmynd og búningar sniðugir. Þegar heim kom tóku synir hans á móti honum og skelltu honum  í einn góðan ratleik til að finna afmælisgjöfina sína og varð úr mikið glens og gaman. Á morgun verður svo slegið upp veislu í Þrastalundi í Grímsnesi. En það er með karla eins og góð vín; verða betri með aldrinum. mn   

Karlakórs kjötbollur

Áður en við hittum Karlakórinn voru kjötbollur á borðum.

Hráefni: nautahakk, egg, haframjöl eða annað bindiefni, epli, laukur, rifinn ostur og krydd.
Nautahakkið er sett í hrærivélaskálina, 2 eggjum bætt í ásamt rifnum eplum, haframjöli og rifnum osti - söxuðum lauknum.  Kryddað með salti, pipar og rósmarín. Hrært vel og vandlega. Í búrskápnum var ekkert haframjöl til þannig að í þetta skipti setti ég mulið kornflex í staðinn. Kjötbollurnar steiktar á pönnu - smart að hafa þær frekar litlar, soðnar kartöflur upp á gamla mátann bornar fram með bollunum og rauðkál. Verði ykkur að góðu. mn 


Karlakór Reykjavíkur

Í gærkvöldi hlustuðum við á hina árlegu vortónleika Karlakórs Reykjavíkur í Langholtskirkju. Þeir eru nú alltaf krúttlegir kallarnir í svörtu fötunum sínum og hvítu skyrtunum, vestunum og með hvítu þverslaufurnar. Glæsilegir gaurar. Dagskráin var um marg sérstök - á köflum þung en það er ekki á hverjum degi sem maður heyrir færeyska kvæðið um Regin smið sungið. Sjúrður á orminum, Sigmundur Völsungasonur og Hjördís kona hansara eru góðir vinir mínir frá Færeyjaráunum og ég fann fyrir gömlum kennslum við fluttning kórsins á þessum skemmtilega færeyska dansi. Og suðurnesjamaðurinn í mér gladdist líka þegar kórinn hóf upp raust sína um þá sægarpa sem sæmd er hverri þjóð af. En að mínu mati var hápunktur kvöldsins flutningur kórsins á Pílagrímakórnum úr óperunni Tannhauser - hreint út sagt frábært eyrnakonfekt.  


Leikhús spaghetti

Áður en lagt var í leikhúsferðina var eldað speltspaghetti í heimagerðri pestósósu.

Hráefni:Speltspaghetti fyrir 2 soðið samkvæmt uppgefnum tíma á umbúðum
Pestósósan:
2 hvítlauksrif - skorin í bita
50 gr. ferskt basil-saxað pínu eða rifið
25 gr. furuhnetur
2 msk. sítrónusafi
1/2 - 1 dl. ólífuolía
50 - 75 gr. rifinn parmesanostur (jurtaparmesanostur frábær)
salt og pipar- upplagt að nota cayenne pipar- á hnífsoddi

Á meðan spaghettíið sýður útbýr maður sósuna. Hvítlaukurinn, basilið og hneturnar maukað í matvinnsluvél og sítrónusafinn með. Sett í skál og olífuolíunni og parmesanostinum hrært saman við. Bragðbætt með salti og pipar. Blandað saman við spaghettíið -olíu bætt við ef vill. Sósuuppskriftin er fyrir 4 þannig að ekki er nauðsynlegt að skella öllu út í - gott að eiga pínu sósu í skál og fá sér með smá brauðbita eftir leikhúsferðina. Smart réttur, einfaldur og meiriháttar góð sósa. Verði ykkur að góðu.


María Magdalena

Um páskana las ég bók sem heitir María Magdalena og fjallar um hina einu sönnu Maríu Magdalenu. Höfundurinn er Marianne Fredriksson, einn vinsælasti höfundur heims og nýlega var saga hennar um Hönnu og Jóhönnu á náttborðinu mínu. Bókin um Maríu Magdalenu er frábær, spennandi og er það merkileg upplifun að finna spennuna sem fylgir því að lesa bók þar sem maður gjörþekkir söguþráðinn en samt les maður af áfergju og bíður spenntur eftir endinum. MM rekur minningar sínar um manninn Jesú og deilur hennar við postulana um túlkun þeirra á kenningum Jesu. Rödd kvenna var ekki hávær á frumdögum kirkjunnar og er á snilldarlegan hátt dregin upp mynd af samstöðu kvenna og valdagræðgi karla. Eftir lesturinn fær maður nýja sýn á þessa örlagaríku atburði en eins og við vitum voru það postularnir sem stofnuðu kirkjuna og skráðu guðspjöllin. María Magdalena hefur alltaf verið umdeild og fátt eitt vitað um hlutdeild hennar í lífi Jesú, annað en hún hefur verið talin lærisveinninn sem hann elskaði mest og sem slík hafa áhrif hennar verið mikil. Saga og þróun kirkjunnar liti öðruvísi út ef rödd hennar og annarra kvenna hefði heyrst betur.


Ásta Lovísa

Kæru vinir. Mig langar að minna ykkur á hana Ástu Lovísu. Hún og börnin hennar þurfa núna á öllum okkar bænum og stuðningi að halda.
Ég kynntist Ástu Lovísu þegar hún var nemandi í Nuddskóla Íslands. Hún greindist með krabbamein í fyrra og því miður hefur ekki enn tekist að lækna sjúkdóminn og er hún á leið til NY til að leita sér lækninga þar hjá færustu læknum heims. Ásta Lovísa er hugrökk ung kona sem hefur vakið þjóðarathygli fyrir bloggið sitt þar sem hún fjallar af einlægni og á opinskáan hátt um baráttu sína við þennan illvíga sjúkdóm.  Bloggið hennar er http://123.is/crazyfroggy og
bankareikningurinn 0525 14 102510  -  kt. 090876-5469


Góðar fréttir

Ég hitti lækninn minn, hana Agnesi, áðan og var hún búin að skoða niðurstöður úr blóðrannsókn frá föstudeginum. Niðurstöðurnar voru allar eins góðar og hægt er og skokka ég út í vorið og sumarið heilbrigð og hress! Næsta skoðun er í ágúst og gomma af góðum dögum framundan sem ég ætla sko að njóta.


Maríur og Stínur af Víkingslækjarætt

Ættarmót eru alltaf skemmtilegar samkomur og um margt merkilegar. Laugardaginn 24. mars var  eitt slíkt haldið á Selfossi og var sérstakt að því leytinu að þátttakendur voru eingöngu konur af Víkingslækjarætt. Voru þar saman komnar konur af ættlegg Kistínar Maríu Þorláksdóttur og Jóns Erlendssonar sem uppi voru á síðari hluta 19. aldar og bjuggu á Suðurlandi. Voru þau langamma mín og langafi. Og það var gaman að heita María þennan dag og enn skemmtilegra að heita Kristín en þessi tvö nöfn hafa gengið í ættinni konu framm af konu, ýmist annað nafnið eitt og sér eða þessi ágætu nöfn saman. María amma mín hét María Þorláksína og ein systir hennar María og kallaðar María eldri og María yngri eftir atvikum eða Marsa og Maja og önnur systir hennar bar nafnið Kristín. Ég er afar stolt af að bera nafn ömmu minnar og oft notið góðs af. Alla tíð hef ég heyrt að konur af Víkingslækjarætt væru skörungar miklir og það sem hafi einkennt þær öðru fremi var að þær þóttu sérlega góðar hannyrða- og saumakonur. Voru margar flinkar í karlmannafatasaumi. Amma mín María var þar engin undantekning. Hún bjó í Reykjavík sem ung kona og saumaði þá föt á margan manninn og konuna og var einnig sérlega flink í útsaumi eða hannyrðum. María amma og Gísli afi bjuggu allan sinn búskap á Stóru-Reykjum í Hraungerðishreppi í Flóa og þegar þau höfðu komið börnunum sínum á legg gerðist amma handavinnukennari í sveitinni. Hún hafði þann síð að fara síðla sumars  til Reykjavíkur til að kynna sér það nýjasta í hannyrðum og saumaskap og kom þá gjarnan við í Baldursbrá sem var verslun neðarlega á Skólavörðustíg og verslaði inn fyrir veturinn. Hún flutti nýjustu tískustrauma austur fyrir fjall og þurfti hvorki að fara til Parísar né NY - góður göngutúr niður Laugarveginn dugði henni ágætlega ásamt því að líta í nýjustu móðinsblöðin hjá Ingibjörgu í Baldursbrá. Henni var ekki fysjað saman - henni ömmu. Móðir mín, Oddný, erfði hæfieika móður sinnar og sá sér og börnunum sínum fjórum farborði með saumaskap og ýmiskonar vinnu tengdri saumum, t.d. átti hún, fyrir utan saumavél, vélar og tæki til að yfirdekkja tölur og hnappa, sauma belti og yfirdekkja, gera við lykjuföll á sokkum og margt fleira tengt saumaskap sem hægt var að hafa atvinnu af. Edda systir mín tók í arf þessa hæfileika formæðra okkar og er hún m.a. flink að ,,setja upp klukkustrengi" og sauma föt. Margir minnast mömmu fyrir góðar flíkur sem hún saumaði og væri hún eflaust frægur fatahönnuður - væri hún uppi í dag.

Á þessu kvennamóti flutti Stína frænka,móðursystir mín (Kristín María)  erindi um ömmu sína og nöfnu Kristínu Maríu Þorláksdóttur og Iðunn móðursystir erindi um móður sína, Maríu (ömmu mína). Stína Kristins (Kristín María) flutti erindi um Maríu yngri móður sína (systir ömmu María). Allar þessar konur eru komnar á efri ár og fluttu mál sitt af stakri prýði. Já, það er svo sannarlega gaman að vera komin af þessum miklu skörungum og ekki verra að bera þetta fallega nafn sem prýðir svo margar konur í ættinni, ég á dótturdóttur sem heitir Margrét María og er það hennar hlutverk að fylgja nafninu eftir á nýrri öld. Fulltrúi allra systkina ömmu Maríu fluttu tölu um sinn ,,forfaðir-móður" og mæltist öllum vel. 


Langt yfir 9 kg

Jæja, Siggi á berginu, í síðustu viku lyfti ég langt yfir níu kg. - vippaði 11,5 kg. Er nú aldeilis ánægð með mig þessa dagana. maja

Kastljós þriðjudagskvöld

Í kvöld, þriðjudaginn 27. mars verða Ljósberar í Kastljósi RUV. Á föstudaginn komu Kastljósarar í heimsókn í Ljósið, Neskirkju og tóku svipmyndir af starfseminni. Meðal annars voru teknar myndir af nokkrum góðum yogateygjum. Til upprifjunar fyrir þá sem búa á erlendri grundu og vilja fylgjast með hér hjá okkur þá er hægt að sjá sjónvarpsþætti á netinu. Í síðustu viku var ung kona af Víkingslækjarættinni í Kastljósinu og stóð sig aldeilis með ágætum - ábending til Horsens og NY.

Og svo minni ég á tónleikana sem auglýstir eru hér á síðunni minni.
Á heimasíðu Ljóssins eru gleggri upplýsingar um þá, slóðin er
http://www.ljosid.org


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband