Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Góð jólagjöf

Í dag hitti ég lækninn minn - hana Agnesi og fórum við yfir niðurstöður úr blóðprufum og lungnamyndatöku frá því á föstudaginn, jafnframt spáðum við og spekúleruðum í ýmsu tengt sjúkdómsferlinu. Niðurstöðurnar voru flestar mjög góðar en enn er pirringur í lifrinni sem trúlega má rekja til krabbameinslyfjanna. Spurning hvort gömul kendirí séu að taka sig upp ... en grínlaust eru þetta bara góðar fréttir og bólgan sem var í lungum er horfin. Svo nú er mín kát og ætlar að fagna þessu með þvi að hitta barnabörnin. Og á morgun koma Snorri, Lydia og Andri Luke - bara tær snilld allt saman. mn


Snemma beygist krókurinn

Á tali

Ásdísi Heiðu þótti gaman að koma í heimsókn til afa og ömmu í dag.  Sérstaka athygli hennar vakti gemsinn það notadrjúga tæki og hún var alveg tilbúin til að tala við afa sinn.  Að vísu var þetta allt í plati en áhuginn var til staðar.  Vangaveltur ABEL um gemsa eiga því fyllilega rétt á sér - það sannar meðfylgjandi mynd.  Eða eins og málshátturinn segir, "Snemma beygist krókurinn (til þess) sem verða vill".   EL


Spakmæli

Þessa vísu lærði ég nýlega, en hún flokkast undir bragarhátt sem kallast úrkast og hljóðar svo:

Að segja biturt orð í eyra,
angri veldur.
Þögnin segir miklu meira,
en margur heldur.                                            Höf:  Ókunnur.


Jólafastan

Þá er jólafastan gengin í garð enn einu sinni. Gaman að sjá hve margir taka fljótt við sér hvað ljósaskreytingar varða - ekki veitir af að lífga upp á skammdegið. Í Austurbrún er búið að tendra ljós í gluggum og bjart og notalegt þegar myrkur skellur á. Heimsótti Kára minn Daníel á Grænuborg áðan, börnin buðu í kakó og piparkökur og voru þau búin að föndra skó til að setja í gluggann. Jólasveinarnir fara að birtast hvað úr hverju og verður gaman að sjá hvernig hann tekur því. Ég er að hressast og mikill munur á heilsufarinu núna eða fyrir nokkrum vikum. mn

Handverkssala Ljóssins

Sunnudaginn 3. desember verður Handverkssala Ljóssins í kaffihúsi Neskirkju við Hagatorg. Þar verða á boðstólum ýmsir munir til sölu sem Ljóssins fólk hefur gert, kaffi á könnunni og meðlæti í boði. Klukkan 13:30 koma góðir gestir og skemmta, Ellen og Eyþór syngja og dansarar sýna dans. 
Í dag tók ég þátt í meiriháttar konfektgerð þar sem framleidd voru 1000 stk. af gómsætu konfekti og vorum við Rannveig á hrærivélunum. Er ég þó nokkuð stolt af mínum hlut - er ekki vön að standi í svona mikilli matvælaframleiðslu. Solla í Himneskri hollustu gaf allt efnið í þetta góðgæti sem verður að sjálfsögðu til sölu á handverkssölunni.
Allur ágóði rennur til styrktar Ljósinu, endurhæfingar- og stuningsmiðstöðvar fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra.   Heimasíða http://ljosid.org
Hvet alla til að koma og styðja gott málefni.


Dánumaður

Einhvern tímann í gamla daga hefði þessi dverghenda verið orð að sönnu.  Hún varð hins vegar til þegar spurt var, hvað kemur næst? Dverghenda?  Kannski var þetta bara létt spaug, en öllu gamni fylgir nokkur alvara.
Dverghenda
Ljóðum gef ég lítið rými
lagast brátt.
Bráðum kemur betri tími
byrja smátt.             EL


Veðurlýsing

Veðrið hefur verið afar rysjótt í nóvembermánuði þetta árið.  Af því tilefni var þessi oddhenta til.

Ýmist blíða eða hríð,
eyðir þíðan trega.
Reynist víða rysjótt tíð,
rýkur gríðarlega.             el.

Miðvikudagur

Mikið er gaman að sjá hvað margir hafa skoðað síðuna okkar og þakka ég öllum fyrir góðar kveðjur og tek undir með Kristjönu að við Eggert eigum svo sannarlega fallegar fjölskyldur. Og saumaklúbbur væri vel þeginn Kata mín. mn


Góðir gestir

Afabörnin

Um helgina komu góðir gestir í heimsókn, afabörnin þrjú ásamt foreldrum sínum og bakaði afinn gulrótarköku í tilefni dagsins. Munið að tvísmella á myndirnar og síðan aftur að smella; þá koma stórar og góðar myndir.


Fleiri myndir

Lyfjagjöf lokið

Aldeilis kát kona sem skokkaði út af LSH í morgun. Lyfin eru talin gera meira ógagn er gagn þegar hér er komið sögu og dæludagar að baki. Fór í eina röntgenmyndatöku og síðan útskrifuð að sinni. Erum við heldur betur kát í Austurbrúninni núna. Segi ykkur nánar frá því síðar, núna ætla ég í bæinn og fá mér góða máltíð í tilefni dagsins. mn

Minni á netfang Ljósins http://www.ljosid.org


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband