Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Á tímamótum

Kynntu þér skemmtilega tímamóta frétt, smelltu á slóðina http://www.skola.is/skolavorubudin/frettasafn/?cat_id=7021&ew_0_a_id=227053


Sigurvegari

Sigurvegari í skoðanakönnuninni um lögin sem voru sungin við skírnaathöfnina er Atli Björn Eggertsson Levy.   Hann sigraði glæsilega og er hægt að sjá niðurstöðurnar í athugasemdum við texta hér fyrir neðan.  Kynnið ykkur endilega málið. Verðlaunaafhending fer fram síðar; nánar til tekið þegar sigurvegrinn kemur til landsins en hann er í Ameríku við nám eins og allir vita en sumir kannski búnir að gleyma því hann les svo stíft að lítið heyrist frá honum. Eru samskiptin við hann að verða eins og samskipti Fjölnismanna voru við landann á öldum áður en þeir voru nú reyndar háðir skipaferðum milli landa sem voru örfáar á ári. Treysti því að Atli stundi nám af kappi og láti ekki trufla sig. Verðlaunin bíða.

Í dag er rigning og rok í höfuðborginni. Oddný og Kári Daníel voru bílstjórar hjá mér í dag og dvöldu hér fram eftir degi. Fékk KD sína límmiða fyrir vel unnin störf á salerninu.

Lyfin streyma um æðar mér og lítið um það að segja en ekki eru þau nú nein heilsubótarefni, veikja og/eða drepa nýjar frumur í líkamanum og gera mann slappan og stundum niðurdregin en svona er lífið og lítið annað að gera en að standa vaktina á enda eins og sönn sjómannsdóttir. En stundum gefur hraustlega á bátinn.

Ætla að hlusta á Magna í nótt.


Gjafavika og söknuður

Nú er litla fjölskyldan frá Brooklyn farin heim og ríkir mikill söknuður hjá okkur. Vikan sem þau dvöldu hér leið hratt og var tíminn nýttur til hins ítrasta. Andri litli Luke heillaði alla með brosi sínu og stórkostlegt að sjá frændsystkinin saman í fyrsta sinn og sérstaklega þá frændur Nóa og hann sem eru jafnaldrar. Miklir snillingar þar á ferð.

Eftir 4 sæluvikur er nú að hefjast gjafavika númer 7 og  seinni hálfleikur að renna upp í þessari baráttu. Hléið frá lyfjasullinu var kærkomið en nú er bara að slá í og ljúka þessu. Var ég hress í síðustu viku og fyrir utan að knúsa Andra og félaga vann ég þó nokkuð í Kennarahúsinu og var haldinn stjórnarfundur og alles. 

Á Lansanum er lífið að falla í fastar skorður og menn og konur að koma til starfa eftir sumarfrí. Á deild 11 B er friður og ró eins og endranær enda valinn maður í hverju rúmi. Hjúkrunarfræðingurinn minn í dag heitir Kristín -  henni fórst vel úr hendi að stinga nálinni í ,,brunninn" og núna streyma hinir ýmsu vökvar um líkama minn og dreifast eftir æðakerfinu og gera vonandi það gagn sem til er ætlast.      mn


Valgeir gerist víðförull

Valgeir Már er floginn út í heim ásamt félögum sínum frá Bifröst. Þeir flugu til Þýskalands, fara síðan til Póllands, Tékklands, Slóveníu, Ungverjalands, Króatíu og Ítalíu.  Á Ítalíu hyggst Valgeir dvelja fram til jóla og stunda nám við Universita Carlo Cattaneo sem er staðsettur í Castellanza skammt norðan við Milanó.

Leyfið börnunum að koma til mín

c_documents_and_settings_administrator_my_documents_my_pictures_skirn_12_agust_2006_skirn_12_agust_2006_044_45463.jpg

Systkinabarnaskírn í Fríkirkjunni;  Snorri, Kári og Oddný létu ausa börn sín vígðu vatni í dag.  Þau bera nöfnin Andri Luke, Nói og Margrét María.  Maggý söng við meðleik Oddnýjar 3 lög sem tileinkuð voru hverju barni fyrir sig.  Lögin eru Maríuvers, Fylgd (elsku litli ljúfur) og Wonderful world. Gaman væri að fá skoðanir manna á því hvert barn á hvaða lag.


Fleiri myndir

Fróðleikur um mannanöfn

Eggert Aron  Nafnið Eggert er upprunalega þýskt nafn, sem mun hafa borist hingað frá Noregi liklega á 15. öld.  Það hefur verið þónokkuð notað í Húnavatnssýslu og þegar ég var að alast upp voru fimm sem báru nafnið í minni gömlu fæðingarsveit. Nafnið Aron er hins vegar hebreskt nafn að uppruna og merking þess óviss. Það mun hafa verið tekið upp hér á landi á 12. öld og hefur tíðkast síðan. Nafnið er afar vinsælt í dag, en sjaldgæft að þessi tvö nöfn séu sett saman. 

Jóhanna Rakel  Nafnið Jóhanna er upprunalega hebreskt nafn, sem mun hafa borist hingað frá Danmörku líklega á 17. öld. Árið 1910 var Jóhanna áttunda algengasta kvenmannsnafn á landinu. Nafnið Rakel er hebreskt að uppruna, Bíbliunafn. Kemur fyrst fyrir hér á landi á 13. öld og er afar vinsælt hin síðar ár.  Jóhanna Rakel og Eggert Aron eru börn Jóhannesar og Hörpu.

Ásdís Heiða  Nafnið Ásdís er íslenskt, dís helguð ásum og hefur tíðkast allt frá landnámsöld. Ingunn Hallgrímsdóttir fyrrum húsfreyja á Hofi í Vatnsdal, langa langaamma Ásdísar Heiðu, hafði mikið dálæti á Ásdísi á Bjargi í Miðfirði móður Grettis sterka, þaðan er nafnið fengið.  Nafnið Heiða er stytting úr lengra nafni í þessu tilviki úr nafninu Aðalheiður. Ásdís Heiða er því skírð eftir ömmum sínum. Til gamans má geta þess að Ásdís Heiða er eini Íslendingurinn sem ber þetta nafn.  Ásdís Heiða er dóttir Sigurðar og Berglindar.


Eggert Aron

c_documents_and_settings_administrator_my_documents_my_pictures_skirn_eggert_aron_skirn_eggert_aron_007.jpg

 Að lokinni skírn

Litli snáðinn á Fífuvöllum var skírður í dag og var úthlutað nafninu Eggert Aron; séra Pálmi Matt. jós drenginn vígðu vatni. Sá stutti lét sér fátt um finnast og svaf athöfnina af sér.  Foreldrarnir ungu buðu upp á frábæra súpu og ýmislegt annað góðgæti og var þessi dagur þeim og öllum sem að málinu koma til mikils sóma.        mn


Ættarmót í Fljótshlíðinni

Að baki góð helgi með ættarmót í Fljótshlíðinni innanborðs. Frá okkar ,,stórlegg" mættu fulltrúar flestra afkomenda ömmu og afa. Nú er það svo að nær helmingur afkomenda pabba (Baldurs) er búsettur erlendis en þeir sem búa hér á landi mættu vel - 9 af 13 voru á staðnum og skemmtu sér vel. Á okkar vegum voru 13 mættir og höfðum sumarbústað til umráða. Gott skipulag var á hlutunum og gekk allt snuðrulaust fyrir sig. Menn grilluðu saman og kvöldvaka var í Goðalandi, þar var slegið á létta strengi; sungið og kvæðamannakeppni  háð, leikir og ýmsar þrautir lagðar fyrir börnin eins og venja er við slík tækifæri. Og að sjálfsgðu var varðeldurinn á sínum stað. Leggurinn okkar stóð sig vel í alla staði og lagði m.a. til forsöngvara í fjöldasönginn, hreppti verðlaun í flokki vaskra barna og sýndi snilli sína í kveðskap. Er stolt af mínu fólki.

Ása og Bragi voru með fullt hús manna og Freyja og Bragi föðursystkini voru með sínu fólki.  Farið var inn að Fljótsdal eins og fyrir 16 árum. Í Fljótsdal voru systkini ömmu Guðbjargar fædd og alin upp og er núna farfuglaheimili rekið í gamla bænum. Mjög gaman að koma þangað og fögur útsýn frá bænum sem stendur innst í Fljótshlíðinni. Andblær gamalla tíma leikur um hlíðina fögru þar sem riður hetjur um héruð fyrr á öldum.

Úr faðmi stórættarinnar var haldið heim á leið og gerður stuttur stans í Litla-Holti í blíðskapar veðri. Þar hefur Eggert verið duglegur að endurreisa húsið okkar góða en fengið lítinn félagsskap frá sinni ektakvinnu sökum krankleika þeim sem hrjáir hana þetta árið. En glæsilegt er þar um að litast og lofar góðu um framhaldið. Og krankleikinn víkur fyrr en síðar og þá verður nú kátt í höllinni.

mn 

 


Andri Luke Snorrason

Nýjar myndir af Andra Snorrasyni á   http://sturluson.com/snorrason

Loksins MJÖG gott veður í Reykjavík. 

MN


Sæluvika

Í dag var svokölluð veðurleysa í höfuðborginni; logn, þurrt og skýjað. Frá höfuðstöðvum ættarinnar á erlendri grundu berast fréttir af miklum  hitum. Þessar meintu höfuðstöðvar eru í Horsens á Jótlandi - skammt frá Jósku heiðunum, þeim stað sem Danir hugðust senda Íslending til -alla með tölu - á sínum tíma. Ættmóðirin á staðnum kveðst halda síg í skugga trjáa nú um stundir; hér þarf nú ekki að draga sig í skuggann  - svo náttúrulegur er hann.

Ég fékk fyrirspurn varðandi ,,vikurnar"  sem sem stjórna lífi okkar þetta árið; gjafavika er vikan sem lyfjagjöf  fer fram og sæluvika er síðan næsta vika á eftir; sú vika er yfirleitt betri og oftast bara þrusugóð.  Gjafavikan tekur örlítið í enda eru lyfin ekki beint heilsubótarefni; frumudrepandi lyf sem veikja eða drepa nýjar frumur í líkamanum og draga úr manni mátt og hafa í för með sér ýmsar aukaverkanir.  En allt gengur þetta nú ágætlega held ég en hef reyndar ekki staðið í þessu áður og veit satt að segja ekket hvernig þetta á að vera - vantar viðmið. Núna er sæluvika.

Húsið við Austurbrún 21 er nýmálað  og  aldeilis munur að sjá það. Frunsurnar frá síðasta ári horfnar og eins og þungu fargi hafi verið létt af því, það ljómar eins og nýútsprungin rós. Merkilegt hvað nánasta umhverfi hefur mikil áhrif á mann og undirstrikar mikilvægi þess að hlúa vel að því sem næst manni er.  

Ekki meira í dag.

Maja

 

   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband