Færsluflokkur: Ljóð

Holuhraun

Gos hefur staðið í 105 daga

Oft er landans erfið raun
og eldgos mikil byrði,
áður fyrr var Holuhraun
harla lítils virði.

Askja Bárðar býsna há
þar bíður dulinn vandi,
fæstir vilja fjallið sjá
fullt af reyk og brandi.

Skyndilega skelfur grund
skortir ekki kraftinn,
eftir margra ára blund
opnar jörðin kjaftinn.

Yfirborðið breytist skjótt
er berast ofurstraumar,
flæða hratt um fagra nótt
fjarska heitir taumar.

Útrás þeirra afar hörð
ennþá heyrist druna,
orkumikil móðir jörð
mótar náttúruna.

Flutt í skötuveislu í Hafnarfirði,
13. desember 2014.
EL


Jafndægur að hausti

September er mánuður haustsins.
Dagurinn styttist og haustlitir
láta sjá sig, í hlíðum fjalla og víðar.
Þetta var tilefni eftirfarandi hringhendu:

Degi hallar húmar að,
haustlauf falla óðum.
Vinir allir eiga stað
upp með fjallaslóðum.      EL


Jólavísan 2013

Jólagjafir flestir fá
þá fyllast hjörtun gleði,
kveikja skulum kertum á
með kærleikann að veði.
EL

Norðurljósin

Norðurljósin lýsa skært
og leiftra hratt um geiminn,
augnablikið titrar tært
það teygir sig um heiminn.

Ástæðan er segulsvið
safnar ofurstraumi,
fegurina fáum við
í fögrum litadraumi.

Næturflugan flýgur skjótt
hún furðu okkar vekur,
litadýrðin dvínar fljótt
en drúgja stund það tekur.

Litagleðin léttir hug
er ljúfar eindir skína,
hjartaþelið fer á flug,
þú faðmar vini þína.

Í desember 2013
Eggert J Levy 


Velvild

Velvildin með vinarhug,
veitir innri hlýju,
hamingjan þá fer á flug
og finnur þig að nýju.

Góðvildin hún gefur þrótt
sem gleður næstum alla,
vinarþelið virkar fljótt
og vekur hugsun snjalla.

Vinsemdin svo færir frið
og fegrar önnur gæði,
gætum að þeim góða sið
að göfga lífsins þræði.
EL


Jólavísan 2012

Jólakveðjan lífgar lund
og léttir tilveruna,
eigið góða yndisstund
sem allir vilja muna.
EL

Vinátta

Vinur örvar vonarglóð
sem vermir lítinn anda,
leiðir þig um ljúfa slóð
er lendir þú í vanda.

Vinafólkið viljum sjá
vera glatt í sinni,
efla hugans innstu þrá
og auka farsæl kynni.

Vinur glæðir lífsins ljós
og lyftir þínu geði,
einnig færðu fagurt hrós
sem fyllir þig af gleði.
EL


Lífsgleði

Ég glaður yrki gleðiljóð
sem gæti örvað heila þjóð
og göfgað marga menn.
Því gleðin eykur innri frið
hún eflir jafnval mannkynið
við gefum gjafir enn.

Gott er að hafa létta lund
svo lukkan glæði hverja stund,
þá heilladísin hlær.
Og gleðin prýðir gæðamann
svo gæfuríkur þykir hann
að andinn örvun fær.

Og glaðlyndi er göfug dygð
sem gefur ætíð fagra hygð
og finnur falda glóð.
Við lyfta megum lífsins skál
svo lundin örvi mjúka sál
og grópi gleðislóð.

En gifta okkar græðir hug
og gefur það sem eflir dug,
hún sendir sældarboð.
Ef gerum allt með glæsibrag
og gyllum þannig sérhvern dag
þá öðlumst sterka stoð.
EL


Jólagleði

Er jólagleðin gengur inn
hún gefur mörgum bros á kinn,
í dimmum desember.
Þið undirbúið allt svo vel
og innilegt er hugarþel,
það eflaust einhver sér.

Við jafnan heyrum jólasöng
og jólabiðin virðist löng,
en ljúfa ljósið skín.
Já, ljósið hátt á himnum er
það heillar menn og aldrei fer,
þar stirnir stjarnan mín.

En stjörnur blika býsna oft
þær birtufylla andrúmsloft,
þá lýsir himnahöll.
Þar gleðin ætíð gyllir hug
og gefur margt sem eflir dug,
hún styrkir okkur öll.
EL


Hrísakotshjónin

Til minningar um foreldra mína þau Jennýju og Jóhannes Levy,
en 100 ár voru liðin frá fæðingu þeirra í maí og ágúst 2010.

Heim að Hrísakoti
heillar þeirra stjarna,
ei með óðagoti
auðið þriggja barna.
Iðin allar stundir
aldrei doskað mikið,
fylla ótal fundir
fagurt æviblikið.

Oft var erfið staða
enginn var þó svangur,
þjóðin þolir skaða
það er lífsins gangur.
Aukastörf þau unnu
oft í þágu sveitar,
aldrei undan runnu
andinn hingað leitar.

Árin gengu yfir
ýmsa bar að garði,
auðna lengi lifir
leynist upp í barði.
Hjónin mætti mæra
margar stundir ljóma,
fósturfoldin kæra
fellur þeim til sóma.

EL
09.08.2011.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband