Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Kæru vinir

Kæru vinir Guðmundur Þór og Freyja búsett í Danaveldi. Gaman að heyra að þið og raunar margir fleiri eru að lesa ljóðin mín. En við þig Guðmund Þór vil ég segja; haltu áfram að stinga niður penna og yrkja vísur. Hugurinn er skýr og þú hefur hárfína tilfinningu fyrir ljóðforminu. Kærar kveðjur úr Austurbrúninni. EL

Haustvísa

Í heita pottinum að morgni laugardags 9. október 2010. Við virðum fyrir okkur drottningu trjánna þennan lygna og sólríka morgun:

Okkar drottning býsna breytt
byrjar haust að kalla.
Lauf af trjánum eitt og eitt
öll til jarðar falla.
EL


María Norðdahl sextug 13. apríl 2010

Fögur kona gríðargóð
gæðakostum búin.
Verkum sínum sinnir hljóð
sjaldan öfugsnúin.

Mögnuð ertu mildar flest
mikið af þér gefur.
Farsæl hrund sem brosir best,
blik í augum hefur.

María er mörgum kær
mjög vel ýmsa þekkir.
Í starfi sínu flink og fær
frúin aldrei blekkir.

Þér er margt til lista lagt
listræn gildi metur.
Um þig verður einatt sagt,
allt þú gerir betur.

Nuddar vel og nýtur þess,
notar orkuflæði.
Losar þannig lífssins stress
lagar ýmis svæði.

Langþráður með fögur fljóð
frægur klúbbur sauma.
Félagsverur feta slóð
flestar eiga drauma.

Orðin sextug elskan mín
allar stundir líða.
Árin næstu óskög fín
öll þig munu prýða.

Með hamingjuóskum,
EL


Íslenskt veðurlag

Löngum kemur lægðardrag
landið yfir gengur.
Vonandi þó verður lag
víkur þessi strengur.
EL

Einsársafmæli

Stefán Atli Davíðsson er einsárs í dag.

Lítil fruma þú varst
þangað til barn barst,
í heiminn ég þig fæddi
og ég við þig ræddi,
góður strákur skaltu vera
því þá hefurðu margt að bera
mun alltaf vera þér hjá
farðu mér aldrei frá.
Þín mamma.

Einsárs gamall stinnur stór
strákur býsna góður.
Stefán Atli ekki mjór,
öflugur og rjóður.
Frá afa.


Íslensk orðsnilld

Ég vildi ég fengi að vera strá
og visna í skónum þínum,
því léttast gengirðu eflaust á
yfirsjónum mínum.
Páll Ólafsson


Loppa

Þessi hringhenda varð til í ársbyrjun þegar Kári, Hjördís og synir komu í heimsókn, ásamt tíkinni Loppu sem var 3ja mánaða hvolpur. 

Tíkin Loppa leikin er,
litla snoppan gljáir.
Hjördís poppar handa sér,
hana toppa fáir.           EL


Skötuboð á Þorláksmessu 2009

Dágóð tíð í desember
dægurþíðan rofnar.
Allur kvíði undan fer
ísinn víða dofnar.

Einstök blíða eykur þrótt
auð er tíðum gatan.
Árin líða alltof fljótt
aftur sýður skatan.

Gleðin prýðir góðan mann
gjarnan býður öðrum.
Andakt síðan sýnir hann
sig ei skrýðir fjöðrum.           EL


Nýjar færslur

Er að velta fyrir mér að setja fljótlega nýjar færslur inná bloggið.
Frúin notar facebook þar liggur allt púðrið. EL


Hvítserkur við Húnafjörð

Ljóðið birtist á bloggsíðunni í fyrra,
og er nú endurbirt.

Heillar strönd við Húnafjörð
hefur margt að bjóða,
kynnum fagran klettadrang
Hvítserk meðal þjóða.

Aldan sverfur basískt berg
brimið á því skellur,
oft þó komi erfið tíð
aldrei steinninn fellur.

Kalda lít ég klettabrík
krýnda fugladriti.
Heimaslóðin Húnaþing
heldur sínu gliti.             EL

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband