Haustlitir

Októbermánuður er tími haustlitanna.

Tími haustsins heldur inn
og hitastigið lækkar.
Betri tíð við bústaðinn
en blöð á trjánum fækkar.

Blöðin orðin gul og grá
guggnar lífsins andi.
Leggst í dvala öspin á
okkar góða landi.

Sígræn tré í sælureit
signa markið prúða.
Fegurðin í svona reit
sveipar landið skrúða.

Berjalyngið litast rautt
er lyftir okkar huga.
Landið yrði ósköp snautt
ef aldrei kæmi fluga.

Blessað haustið byrjar vel
bráðum kemur vetur.
Grasið aftur græna tel
gleðja augað betur.
EL


Stóðréttir í Víðidal

Laugardaginn 2. október voru stóðréttir í Víðidal.  Við Jonni drifum okkur norður og heimsóttum bændasamfélagið, en af því tilefni urðu til nokkrar vísur.

Horfi norður Húnaþing
háu fjöllin allt í kring,
Víðidal og Vatnsnes leit
varla finn ég betri sveit.

Haldin er þar hrossarétt
höldar taka starfið létt,
gefa frá sér gleðihljóð
ganga sundur eigið stóð.

Kaffiskúrinn kynni næst,
kaffið heillar margt þar fæst,
konur veita kátt er geð
kaupi líka bollu með.

Hallar degi kemur kvöld
karlar aftur taka völd,
reka burtu hrossahjörð
heim á sína eigin jörð.

Víðihlíð með verðugt ball
verður eflaust hörku skrall,
ýmsir munu dansa dátt
dvínar réttargleðin brátt.
EL


Haustvísa

Í heita pottinum að morgni laugardags 9. október 2010. Við virðum fyrir okkur drottningu trjánna þennan lygna og sólríka morgun:

Okkar drottning býsna breytt
byrjar haust að kalla.
Lauf af trjánum eitt og eitt
öll til jarðar falla.
EL


Vísur til vísnavinar

Stöðugt hannar stærri vef
streyma grannaljóðin.
Nýjan skanna naumast hef
nærast sannleikshljóðin.

Ætíð glæðir okkar hug
aftur kvæðin blífa.
Kannar fræðin kemst á flug
kemur skæðadrífa.

Góður mætur maður er
mikið bætir sinni.
Afar gætinn frómur fer
forðast næturkynni.
EL


María Norðdahl sextug 13. apríl 2010

Fögur kona gríðargóð
gæðakostum búin.
Verkum sínum sinnir hljóð
sjaldan öfugsnúin.

Mögnuð ertu mildar flest
mikið af þér gefur.
Farsæl hrund sem brosir best,
blik í augum hefur.

María er mörgum kær
mjög vel ýmsa þekkir.
Í starfi sínu flink og fær
frúin aldrei blekkir.

Þér er margt til lista lagt
listræn gildi metur.
Um þig verður einatt sagt,
allt þú gerir betur.

Nuddar vel og nýtur þess,
notar orkuflæði.
Losar þannig lífssins stress
lagar ýmis svæði.

Langþráður með fögur fljóð
frægur klúbbur sauma.
Félagsverur feta slóð
flestar eiga drauma.

Orðin sextug elskan mín
allar stundir líða.
Árin næstu óskög fín
öll þig munu prýða.

Með hamingjuóskum,
EL


Umferðin

Mergjuð umferð, margir keyra
meðan þörfin er,
aðrir ferðast ennþá meira
allir flýta sér.

Utan brautar ýmsir skynja
endalausan klið,
undan honum óðar stynja
eflaust vilja frið.

Út og suður liggja leiðir
ljósin kvikna skær,
litadýrðin suma seiðir
sjálfur máninn hlær.

Þegar vetrardagar dvína
dágott nálgast vor,
augnablikin aftur sýna
aukið hraðaskor.

Einkabíllinn áfram þýtur
enginn stoppar hann,
malbikinu mikið slítur
mynda svifryk kann.

Helst til margir háskann spana
hef það fyrir satt,
fjarri góðum ferðavana
förum alltof hratt.

Fólk sem er í ferðageira
fregnir segja mér,
aðrir ferðast ennþá meira
allir flýta sér.
EL


Íslenskt veðurlag

Löngum kemur lægðardrag
landið yfir gengur.
Vonandi þó verður lag
víkur þessi strengur.
EL

Geislar

Í frístundahúsinu um síðustu áramót.
Geisla ber nú lágt við loft,
lífið er í dróma.
Myrkrið frerann magnar oft,
marga gerir tóma.
EL


Það styttist í vorið

Þann 17. mars byrjuðu fyrstu fuglarnir að syngja í garðinum.
Nóttin ennþá dáldið dimm,
dágóð reynist sjónin.
Komu í bæinn klukkan fimm
kátu þrastarhjónin.
EL


Þessi eilífi svefn

Þegar sef ég út í eitt
ekki stefin kvikna.
Lífið hefur litlu breytt
ef ljóðabréfin stikna.

Oft um nætur yrkja vil
andinn mætir glaður.
Orku bætir af og til
afar gætinn maður.
EL


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband