Gjafavika og söknuður

Nú er litla fjölskyldan frá Brooklyn farin heim og ríkir mikill söknuður hjá okkur. Vikan sem þau dvöldu hér leið hratt og var tíminn nýttur til hins ítrasta. Andri litli Luke heillaði alla með brosi sínu og stórkostlegt að sjá frændsystkinin saman í fyrsta sinn og sérstaklega þá frændur Nóa og hann sem eru jafnaldrar. Miklir snillingar þar á ferð.

Eftir 4 sæluvikur er nú að hefjast gjafavika númer 7 og  seinni hálfleikur að renna upp í þessari baráttu. Hléið frá lyfjasullinu var kærkomið en nú er bara að slá í og ljúka þessu. Var ég hress í síðustu viku og fyrir utan að knúsa Andra og félaga vann ég þó nokkuð í Kennarahúsinu og var haldinn stjórnarfundur og alles. 

Á Lansanum er lífið að falla í fastar skorður og menn og konur að koma til starfa eftir sumarfrí. Á deild 11 B er friður og ró eins og endranær enda valinn maður í hverju rúmi. Hjúkrunarfræðingurinn minn í dag heitir Kristín -  henni fórst vel úr hendi að stinga nálinni í ,,brunninn" og núna streyma hinir ýmsu vökvar um líkama minn og dreifast eftir æðakerfinu og gera vonandi það gagn sem til er ætlast.      mn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband