22.7.2007 | 13:39
Helgarstuð
Síðasta vika var frekar viðburðarík og ber þar hæst helgin í Litla-Holti þar sem Levybræður með sínar spússur og börn komu og léku sér á flötinni í sól og sumaryl. Litlu stúlkurnar Jóhanna Rakel og Ásdís Heiða undu sér vel í lítilli sundlaug sem Jóhanna var með í farteskinu og Atli Björn sá um vatnsaustur í; þær létu sér fátt um finnast ærslin í þeim Levýum sem slógu kúlur og hentu kubbum um víðan völl eins og þeir ættu lífið að leysa. Eggert Aron síslaði við bolta og ýmislegt annað í sólarylnum og konurnar sleiktu sólina á milli þess sem þær tóku þátt í leik bræðranna. Mikið Grillað hlegið og gantast og allir sváfu vel - hver á sínum stað. Fífuvallarfjölskyldan var með sitt eigið hús sem reist var á athafnaflötinni. Fleiri góða gesti bar að garði, Kári Sturluson ásamt Tindi og Nóa tillti niður tá annað slagið en þeir voru í nágrenninu í slagtogi með Álfheiði og Má, foreldrum Hjördísar sem reyndar litu við líka ásamt Hreini tengdarsyni sínum. Á þriðjudagskvöldið komu Már og Hreinn færandi hendi með forláta skóflu handa húsbóndanum og höfðu grafið nafn hans á skaftið - höfðingleg gjöf og frumleg. Húsmóðirinn á staðnum gladdist mjög þegar hún sá hverjum skóflan var tileinkuð.
Höfuðstaður Suðurlands, Selfoss var sóttur heim og sund stundað á milli sólbaða og einn daginn var skroppið á Gölt þar sem Erla Levy og Gunnlaugur ráða ríkjum. Guðrún Erna, ásamt vini sínum, kom í Grill eitt kvöldið. Og alltaf sama blíðan.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.