16.7.2006 | 22:43
Skin og skúrir
Í gær rigndi eldi og brennisteini og var dagurinn notaður til að heilsa upp á unga drengi; sá nýjasti á Fífuvöllum er við sama heygarðshornið og er eins og smækkuð útgáfa af föður sínum; næstnýjasta eintakið - Nói í Fagraþingi - hló og skríkti þegar hann sá ömmu sína og baðaði út öllum öngum til að tryggja sér athygli hennar.
Síðasta vika var svokölluð ,,gjafavika" eins og við köllum það hér í Austurbrún. Að sama skapi hefur vikan á eftir ,,gjafaviku" fengið nafngift ,,sæluvika" er hún nefnd og hófst ein slík í dag.
Í gær var sem sagt rigningarbræla en í dag skein sól í heiði. Bjartsýni var pakkað niður og haldið út úr bænum og lá leiðin austur fyrir fjall (einhver undrandi?) og ýmislegt gert sér til dundurs. Í Hveragerði var áð á Konditoríinu og fyrir utan að snæða fyrirtaks brauðmeti/sætabrauð voru hin pólitísku álitamál rædd við Steinunni Jóhannesdóttur (mömmu Jóns Odds og Jóns Bjarna úr samnefndri bíómynd)og ákveðið að halda þeirri umræðu áfram við tækifæri og var þungur áhyggjutónn í umræðunni enda hafa niðurstöður úr skoðanakönnunum um fylgi stórnmálaflokka udnanfarið valdið mörgum andvökunóttum hjá sómakæru fólki (þvílík setning)!.
Hanagerðishjón - Gísli og Rúna - voru gripin glóðvolg í heita pottinum en þau risu upp úr hitanum og var skellt í nokkrar sérbakaðar vöflur. Næsti áfangastaður var Litla-Holt og var þar allt með kyrrum kjörum og kartöflugrös lofa góðri uppskeru í haust. Eftir að hafa spáð og spekúlerað, mælt og pælt að hætti landeiganda var haldið af stað heim á leið en lykkja lögð á leið og StokksEyrarbakkahringurinn tekinn. Þar var gerð tilraun til að finna sumarbústað Möggu ömmu og Helga afa en það tókst ekki og slæmri leiðsögn úr farþegasæti hinu fremra kennt um. En við reynum bara aftur seinna.
Á rás 2 í kvöld hefur Andrea aðal yljað mér um hjartarætur með tónlist Bítlanna og Janisar Jopplins - en sú frábæra listakona lést um aldur fram 1970 aðeins 27 ár ........... En nú er sem sagt sæluvika að ganga í garð hjá sumum og eru miklar vonir bundnar við hana .......... hjá sumum. Og að lokum vil ég geta þess að tengdadóttir mín Lydia er þrítug í dag og fær hún heimsins bestu afmæliskveðjur frá okkur. Er reyndar búin að fá sínar hefðbundnu kveðjur á móðurmálinu. Og Kári Daníel hringdi í ömmu sína í fyrsta skiptið í dag ........ hægt að gleðjast yfir svo mörgu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.