María Magdalena

Um páskana las ég bók sem heitir María Magdalena og fjallar um hina einu sönnu Maríu Magdalenu. Höfundurinn er Marianne Fredriksson, einn vinsælasti höfundur heims og nýlega var saga hennar um Hönnu og Jóhönnu á náttborðinu mínu. Bókin um Maríu Magdalenu er frábær, spennandi og er það merkileg upplifun að finna spennuna sem fylgir því að lesa bók þar sem maður gjörþekkir söguþráðinn en samt les maður af áfergju og bíður spenntur eftir endinum. MM rekur minningar sínar um manninn Jesú og deilur hennar við postulana um túlkun þeirra á kenningum Jesu. Rödd kvenna var ekki hávær á frumdögum kirkjunnar og er á snilldarlegan hátt dregin upp mynd af samstöðu kvenna og valdagræðgi karla. Eftir lesturinn fær maður nýja sýn á þessa örlagaríku atburði en eins og við vitum voru það postularnir sem stofnuðu kirkjuna og skráðu guðspjöllin. María Magdalena hefur alltaf verið umdeild og fátt eitt vitað um hlutdeild hennar í lífi Jesú, annað en hún hefur verið talin lærisveinninn sem hann elskaði mest og sem slík hafa áhrif hennar verið mikil. Saga og þróun kirkjunnar liti öðruvísi út ef rödd hennar og annarra kvenna hefði heyrst betur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband