21.3.2007 | 11:21
Safnaðu góðum dögum
Á heimasíðu dóttur minnar www.oddny.is las ég skemmtilegar hugleiðingar um góða daga. Þar vitnar hún í þá lífssýn að safna góðum dögum og að gefa góðum dögum gaum þegar þeir líta dagsins ljós. Þessar pælingar í dögum minna mig á afa minn, Kjartan Norðdahl, hann átti mörg góð orðatiltæki og tilsvör á reiðum höndum í daglegu lífi. Í hugum afkomenda hans eru til margar minningar sem tengjast góðum dögum og munum við mörg eftir því að hjá honum voru ,,allir dagar sunnudagar". Afi minn var vel gefinn og skemmtilegur karl. Góðir dagar eru ekki sjálfgefnir og sannarlega ástæða til að gleðjast þegar þeir birtast eins og í síðustu viku þegar Mona Sahlin var kjörin formaður sænska jafnaðarmannaflokksins og eru núna þrjár konur sem veita jafnaðarmannaflokkum forystu á Norðurlöndum. Var það góður dagur í sögu kvenréttinda og vonandi að þeir verði fleiri í nánustu framtíð. Ég man eftir mörgum slíkum góðum og best man ég eftir deginum þegar Íslendingar kusu sér konu til að gegna forsetaembættinu. Mikið hlakka ég til þegar okkur ber gæfu til að velja kvenforsætisráðherra og það er kannski ekki svo ýkja langt í það, alla vega eigum við góðan fulltrúa sem gegnir formennsku í stjórnmálaflokki og smellpassar í hlutverkið. Notaleg tilfinning hríslast um mig þegar ég hugsa til dagsins góða þegar R-listinn vann sinn fyrsta sæta sigur og Ingibjörg Sórún varð borgarstjórinn okkar. Forsætisráðherrastóllinn bíður og nú er bara að spýta í lófana og fara alla leið. Næst ætla ég að tala um gott fólk sem er, eins og góðir dagar, ekki sjálfgefið og ástæða til að staldra við þegar það gengur inn í líf manns. mn
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:22 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.