Færsluflokkur: Ljóð

Stóðréttir í Víðidal

Laugardaginn 2. október voru stóðréttir í Víðidal.  Við Jonni drifum okkur norður og heimsóttum bændasamfélagið, en af því tilefni urðu til nokkrar vísur.

Horfi norður Húnaþing
háu fjöllin allt í kring,
Víðidal og Vatnsnes leit
varla finn ég betri sveit.

Haldin er þar hrossarétt
höldar taka starfið létt,
gefa frá sér gleðihljóð
ganga sundur eigið stóð.

Kaffiskúrinn kynni næst,
kaffið heillar margt þar fæst,
konur veita kátt er geð
kaupi líka bollu með.

Hallar degi kemur kvöld
karlar aftur taka völd,
reka burtu hrossahjörð
heim á sína eigin jörð.

Víðihlíð með verðugt ball
verður eflaust hörku skrall,
ýmsir munu dansa dátt
dvínar réttargleðin brátt.
EL


Vísur til vísnavinar

Stöðugt hannar stærri vef
streyma grannaljóðin.
Nýjan skanna naumast hef
nærast sannleikshljóðin.

Ætíð glæðir okkar hug
aftur kvæðin blífa.
Kannar fræðin kemst á flug
kemur skæðadrífa.

Góður mætur maður er
mikið bætir sinni.
Afar gætinn frómur fer
forðast næturkynni.
EL


Umferðin

Mergjuð umferð, margir keyra
meðan þörfin er,
aðrir ferðast ennþá meira
allir flýta sér.

Utan brautar ýmsir skynja
endalausan klið,
undan honum óðar stynja
eflaust vilja frið.

Út og suður liggja leiðir
ljósin kvikna skær,
litadýrðin suma seiðir
sjálfur máninn hlær.

Þegar vetrardagar dvína
dágott nálgast vor,
augnablikin aftur sýna
aukið hraðaskor.

Einkabíllinn áfram þýtur
enginn stoppar hann,
malbikinu mikið slítur
mynda svifryk kann.

Helst til margir háskann spana
hef það fyrir satt,
fjarri góðum ferðavana
förum alltof hratt.

Fólk sem er í ferðageira
fregnir segja mér,
aðrir ferðast ennþá meira
allir flýta sér.
EL


Geislar

Í frístundahúsinu um síðustu áramót.
Geisla ber nú lágt við loft,
lífið er í dróma.
Myrkrið frerann magnar oft,
marga gerir tóma.
EL


Það styttist í vorið

Þann 17. mars byrjuðu fyrstu fuglarnir að syngja í garðinum.
Nóttin ennþá dáldið dimm,
dágóð reynist sjónin.
Komu í bæinn klukkan fimm
kátu þrastarhjónin.
EL


Þessi eilífi svefn

Þegar sef ég út í eitt
ekki stefin kvikna.
Lífið hefur litlu breytt
ef ljóðabréfin stikna.

Oft um nætur yrkja vil
andinn mætir glaður.
Orku bætir af og til
afar gætinn maður.
EL


Vinabönd

Fyrir nokkrum misserum fór þessi breiðhenda sem er með runurími til vísnavinar.

Sannur ertu vísnavinur
virðir jafnan okkar hrinur
þó að ég sé þokkalegur
þægur maður lítið tregur,
ég get aldrei orðið góður
aðeins beðið fremur hljóður
eftir þínum úrvals stökum
orðinn sljór af næturvökum.         EL


Við Álftavatn

Álftavatn er í Soginu á mörkum Grafnings og Grímsness. Kveikjan að þessu ljóði varð til seint í desember 2009, undir miðnætti í heiðskíru veðri, nokkru frosti, hægviðri og tunglskini.

Magnað kvöld er máninn skín
mildur næturfriður.
Blessuð kyrrðin bíður mín
best að setjast niður.

Vatnið faðmar Sogið sjálft
silung mætti veiða.
Friðuð syndir fannhvít álft
flýgur inn til heiða.

Álftasönginn enginn sér
ómar fuglaspjallið.
Þegar heiðskír himinn er
heillar Ingólfsfjallið.

Sannir vinir syngja þar
sífellt geta vakað.
Aldrei hafa álftirnar
áður svona kvakað.

Lygnir senn og landið frýs,
lifna ótal sögur.
Dvínar myrkur dagur rís,
dægurmyndin fögur.              

Með vinsemd,
EL


Borgarvirki

Borgarvirki er áberandi og fögur klettaborg í Húnaþingi vestra.

Höldum norður Húnaþing,
hérað Grettis sterka.
Virkið er á vinstri hönd
í Víðidalnum merka.

Klettaborgin fögur, forn,
fyrrum veitti skjólið.
Nálægt miðjum sveitasal,
sögufræga bólið.

Vissulega vígið hlóð
vaskur hagleiksmaður.
Skima má af virkisvegg,
til varnar góður staður.

Víga-Barði varðist mjög
vistafár en heppinn.
Borgfirðinga burtu rak
bauð þeim djarfur keppinn.

Ár og vötn og fjarlæg fjöll
fríð er jarðarsmíði.
Borgarvirki er umfram allt,
einstök sveitarprýði.              EL


Fallegur dagur

Þessar hringhendur urðu til á fögrum degi.
Með útsýni til Snæfellsjökuls og Esjunnar.

Sýn til fjalla fögur er,
fegurð varla þrýtur.
Jökulskallinn skín við mér,
skartar mjallahvítur.

Upp á hjallann halda má,
hæsta stallinn feta.
Ýmsir snjallir eflaust ná,
aldrei lallað geta.         

Geislar falla foldu á,
fáa galla eygi.
Þó mun alla þokan hrjá,
þegar hallar degi.            EL


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband